þriðjudagur, apríl 5

Tónleikarnir

Ég ætla aðeins að resúmera tónleikana á laugardaginn fyrir Heiðu og aðra sem misstu af þessum stórviðburði.
Tónleikarnir voru einfaldlega frábærir, lænöppið mjög fjölbreytt, skemmtilegt og frumlegt.
Við skreyttum salinn (Rússland í Klínk & Bank) með smá karnivalstemmingu og fullt af fólki kom og var yfir sig ánægt.

Fyrstar á svið voru Lazy Housewifes sem eru þær Dísa (úr Rokkslæðunni) og Nana.
Þær fluttu nokkur angurvær og falleg lög sem voru einsog lognið á undan storminum, og skiptust þær á að spila á gítar, hljómborð, bassa og pott, auk þess sem Kata Brúðarbandsmær spilaði á bassa í nokkrum lögum og á þrumutrommu og ég raddaði eitthvað.
Þá sté Viðurstyggð á stokk.
Þetta ársgamla tríó hefur alltaf verið magnað en á laugardaginn var krafturinn enn meiri.
Gunna úr Mammút spilar á bassa með þeim núna og gefur þeim mikla orku, hún er sextán ára og einn flottasti bassaleikari landsins. Lögin eru viðurstyggilega hrá, attitjúd stelpnanna agressívt þannig að maður stendur bara við sviðið og hristir sig í takt með glott á svip og segir greddulega "Já!"
Kata úr Mammút stökk uppá svið og rappaði/gargaði í einu laganna, mjööög smart.
Donna Mess voru næstar og tóku salinn með trompi.
Enginn á Íslandi er að gera svona tónlist og flutning. Björg gerir tónlistina á tölvuna heima hjá sér og minnir hún helst á sænsku systkinin í The Knife og Peaches. Þær eru þrjár sem syngja og skríkja í gegnum ýmsa effekta og dansa við undir strobe-ljósi í reykjamekki.
Salurinn trylltist af hrifningu.
Næst á svið var Brite Light sem eru Kolbrún á bassa, Unnur á trommur, Árni á orgel og Tinna á raddböndum. Tónlistin er í rólegri kantinum, orgelið í fyrirrúmi, bassalínurnar mjög smartar og trommurnar tilraunakenndar á lágum nótum og svo syngur Tinna mjög letilega og lokkandi með sinni flottu dökku rödd.
Þá tók Mammút við.
Þau byrjuðu á "gömlu" lögunum sínum en fluttu svo nýtt efni sem lofar mjög mjög mjög góðu.
Kata söngkona varð 16 ára þetta kvöld... það er svo ótrúlegt hvað þau eru ung og efnileg.
Hún er fantagóð söngkona og Gunna á bassanum æði.
Mikill kraftur í þessu bandi.
Svo enduðum við í Brúðarbandinu kvöldið og afhentum verðlaun - aðgangsmiðinn var sko happdrættismiði og vinningarnir voru verðmætir munir úr eigu hljómsveita kvöldsins.

Ég er yfirgengilega ánægð með þessa tónleika.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home