miðvikudagur, mars 1

Ég pró

Ég hef sloppið furðu vel við gólandi krakkaskríl í dag. Sá nokkur kvikindi með græðgisglampa í augum en tókst að forða mér. Sem betur fer vinn ég ekki í búð.
Öskudagurinn er alveg að tapa sér í rugl, enginn er með öskupoka lengur en það var aðal stuðið þegar ég var lítil að sauma pokana, beygja nálarnar og reyna svo að festa þá í fólk án þess að stinga það til dauðs.
Bolludagurinn fór líka framhjá mér en ég fagna því þó ekkert sérstaklega, hefði verið til í eina bollu eða tuttugu. En þar sem ég er ekki lengur í barnaskólanum Háskóla Íslands er ég í fullri vinnu við að læra og hafði hvorki tíma né ráð til að taka eftir bollum.
Í gamla daga þegar hún ég var ung voru bolludagar líka ævintýradagar því maður undirbjó hann með því að föndra bolluvöndinn og vandaði sig svo við að bolla alla þá sem mögulega gátu gefið manni bollu. Bolla bolla!
Ég eignaði mér alla þessa daga; bolludag, sprengidag og öskudag af því að oftast átti ég afmæli á eða í kringum þá.
Mig minnir að ég hafi verið átta ára þegar afmælið mitt bar upp á bolludegi og mamma bjó til risastóran vatnsdegsbolluhring og setti kerti ofaná. Það fannst mér smartast í alheiminum.
Næsta ár átti ég svo afmæli á sprengidag og fékk saltkjöt í kvöldmat og litla kók í gleri með. Þetta var í mínum huga hinn besti matur og meðlæti.
Svo átti ég afmæli á öskudegi og gat gengið í búðir og sungið ,,Ég á afmæli í dag!” og fengið bæði nammi, athygli og afmælisóskir.
Massa delúx.

Mjá þetta líf.

Sprengidagurinn í gær var hins vegar ömurlegur því ég fékk vonda frétt, vonda frétt og, allt er þegar þrennt er; vonda frétt. Það lagaðist ekki fyrr en ég fór uppá Skaga til mömmusín sem gaf mér saltkjöt og pepp og líka það að hanga með systrum mínum og hlæja skessulega með þeim. Þá leið mér betur og hélt heim á leið og réðst á vondu frétt númer eitt sem var tölvan mín. Hún hafði tekið uppá því ódæði að fremja sjálfsmorð. En þar sem ég er snillingur tókst mér að lappa uppá hana og koma henni í gang. Hún er hamingjusamari en ég er ekki jafn hamó.
Tölvugaurinn í skólanum sagði að Windows XP Home Edition væri jafn slæmt umhverfi og Harlem og ég ætti að hlaupa heim og strauja hana með Professional.
Nú er ég komin með þann disk í hendurnar en er eitthvað pínu hrædd.
Á ég?

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Uss, ekki tala svona illa um barnaskóla! Þar var dælt út verkefnum og tjékkað á því hvort maður hefði unnið þau eða ekki. Sem er reyndar gert í sumum skorum Háskólans, þó aðallega hinummegin við Suðurgötuna. Flugvallarmegin tjékkar yfirleitt enginn á því hvort maður læri heima eða ekki, allavega ekki í þeim skorum sem ég hef flækst um í.

Hehe, getur annars ekki verið að markmiðið með verkefnaálaginu í Kennó sé verið að skapa i tilvonandi kennurum beiskju sem þeir munu svo fá útrás fyrir með heimavinnuálagi á tilvonandi nemendur sína? ;)

9:36 e.h.  
Blogger Sigga said...

Haha, það er mjög góð kenning hjá þér Unnur!
Mér datt líka í hug að þeir væru undir svona gasalega miklum áhrifum af pönkinu og do it yourself hugmyndafræðinni.
Já! Kennó er pönkskóli!

9:48 e.h.  
Blogger Ofurpési said...

Go for it! XP pro rokkar...

10:41 e.h.  
Blogger Sigga said...

Mjá en ég þori ekki að gera það ein, verð að hafa einhvern til að halda í hendina á mér og segja þetteralltílæþúgeturidda.

11:34 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home